Almennt um botnstykki

Dýptarmælabotnstykki eru til í gríðarlegu úrvali og í mörgum tilvikum sérsmíðuð fyrir þá mæla sem þau koma með og passa illa við aðra mæla.

Þetta gerir að verkum að í mörgum tilvikum verður að skipta um botnstykki um leið og skipt er um dýptarmælum, ólíkt því sem oft var fyrr á árum þegar minni munur var á botnstykkjum, ef botnstykki var 50khz þá passaði það við flesta 50 khz dýptarmæla.

Þetta gerir það einnig að verkum að afar erfitt er að eiga botnstykki sem henta öllum á lager og halda vefsíðum varðandi þau uppfærðum með öllu þeim mismunandi botnstykkjum sem eru í boði.

Þessvegna munum við fjalla almennt um botnstykki hér á síðunni og reyna að upplýsa um helstu eiginleika botnstykkja og hvað þarf að hafa í huga við val þeirra.

Þegar kemur að vali botnstykkja eru aðallega 4 atriði sem þarf að hafa í huga:

Tíðni: Flestir dýptarmælar sem ætluð eru til fiskleitar og botngreiningar eru á tíðnibilinu 25 – 200 KHz, en algengastir eru tveggja tíðna mælar á 50 og 200KHz. Almenna reglan með tíðni er að lægri tíðni er langdrægari og vinnur því á meira dýpi. Hærri tíðnir gefa skýrari mynd á grynnra vatni og verður fyrir minni áhrifum frá loftbólutruflunum sem oft myndast undir bátum á miklum hraða
Stærð: Þá er bæði átt við afl botnstykkis en það liggur oftast nær á bilinu 300 W til 3 KW, og raunstærð þeirra í sentimetrum. Stærðin hefur áhrif á geislabreidd botnstykkja en eftir því sem þau eru stærri er geislinn þrengri.  Þrengri geisli gefur skarpari og betri mynd, sérstaklega í bröttum köntum og á misdýpi.
Lögun eða byggingarlag Botnstykki eru til í ýmsum lögunum og ræðst það af gerð og notkun báta hvernig botnstykki henta þeim best. Almennt séð er best að staðsetja botnstykki utan á bátum en stundum verður því ekki við komið og þá þarf að velja botnstykki sem hönnuð eru til að vera innanborðs
Impedance Þetta er sá eiginleiki botnstykkja sem er hvað óáþreifanlegastur. Dýptarmælar eru hannaðir með ákveðinn útgangs impedance og botnstykkið þarf að hafa sem líkastan impedance til að hafa góða nýtni í sendingu og móttöku. Það er ekki alltaf auðvelt að nálgast upplýsingar um impedans dýptarmæla, ekki síst ef þeir eru orðnir gamlir og því er oft nokkur tilraunastarfsemi við að finna botnstykki sem hentar þeim.

 

Stundum kalla aðstæður á að það þarf að setja botnstykki innan í báta og láta þau senda í gegnum byrðing bátsins.

Þetta getur verið vegna þess að báturinn sé á floti og ekki séu tök á að taka hann á land til að koma fyrir botnstykki neðan á honum, eða botnlag hans er einfaldlega þannig að best sé að hafa botnstykkið inni.  Ef valið er að hafa botnstykkið inni í bátnum þarf að gæta að því að velja stað þar sem reikna má með því að efnið í byrðingnum sé gott, ekki alltof þykkt, ekki séu steypugallar eða loftbólur í plastinu og að byrðingurinn sé ekki úr samlokuplasti eða tvöföldu plasti með td. balsavið á milli. Ekki er hægt að setja botnstykki innanborðs í trébáta og stálbáta.
Það má alltaf reikna með einhverri deyfingu þegar botnstykki er sett innanborðs í bátum.

Ef ákveðið er að setja botnstykki innanborðs er best að nota botnstykki sem eru sérhönnuð til þess og koma með sérhönnuðum tanki sem er felldur að botninum og fylltur með frostlegi til þess að leiða hljóðbylgjurnar milli botnstykkis og byrðings, sjá skýringarmyndir hér að neðan. Þessi gerð botnstykkis virkar best í þetta en í gegnum tíðina hafa allskonar botnstykki þó verið græjuð í báta með svipuðum hætti, stundum með ágætis árangri

Ísetningarleiðbeiningar

 

 

Ein algengasta gerð botnstykkja til að setja neðan á báta er svokallað Gegnumbyrðings botnstykki (Through Hull) en  kemur með hálsi úr bronsi, plasti eða ryðfríu stáli sem kapallinn kemur upp úr. Hálsinn er gjarna um 25mm sver með gengjum. Helsti kostur þessarra botnstykkja er að þau eru mjög einföld í uppsetningu, það er einfaldlega borað fyrir hálsinum og botnstykkið hert að passandi hallaklossa og þá er það komið í og kapallinn inn um leið án þess að hugsa þurfi fyrir kapalgegntaki.

Helsti gallinn við þessi botnstykki er að þau henta ekki í málmbáta þar sem málmurinn í þeim myndar tæringu þegar hannn kemst í snertingu við botn bátsins, og einnig eru þessi botnstykki ekki til stærri en 1 KW

Ísetningarleiðbeiningar

 

Þessi botnstykki eru yfirleitt bátslaga og boltast neðan á bátinn með hallaklossa. Kapallinn er tekinn beint upp um botn bátsins með sérstöku kapalgegnumtaki.

Þessi botnstykki fást í 1-3 KW, henta öllum millistórum og stærri bátum og eru frekar þægileg í ísetningu

Ísetningarleiðbeiningar

 

Þessi botnstykki eru ólík öðrum utanáliggjandi botnstykkjum að því leiti að þau hafa engar festingar og þarf því að smíða utan um þau tank til að festa þau neðan á báta og skip.

Inn í tankinn eru síðan útbúnar festingar fyrir botnstykkið og gegntak tekið upp úr honum inn í skipið. Botnstykki af þessari gerð eru gjarnan sett undir stærri stálskip og eru oftast 2 – 10 KW að stærð

 

Þessi botnstykki eru oftast úr bronsi en geta einnig verið úr plasti eða ryðfríu stáli. Kosturinn við þau er að það er mjög einfalt að setju þau undir báta og þau standa nær ekkert niður úr botninum.

Aðeins þarf að bora eitt gat á botn bátsins, að vísu nokkuð stórt 50-100 mm. Ekki er þörf á hallaklossa því hið eiginlega botnstykki hallar inni í húsinu, en val er á 0°, 12° eða 20° halla á botnstykki til að passa byrðingshalla mismunandi báta.

Þessi botnstykki eru fáanleg í bæði 600W og 1KW útfærslu, og henta vel minni hraðskreiðum bátum.

Ísetningarleiðbeiningar

Þessi gerð botnstykkja er algeng á litlum skemmtibátum og slöngubátum.

Hún er auðveld í ásetningu en viðkvæm fyrir truflunum frá skrúfu og nær aldrei notuð á atvinnufiskibátum.

Algeng stærð er 300-600W en þó til í stærri útgáfu

Ísetningarleiðbeiningar

 

Flokkur: Merkimiði: